Jón Friðfinnsson

Vesturfarar

Jón Friðfinnsson Mynd Almanak 1945

Richard Beck skrifar áhugaverða grein um Jón Friðfinnsson í Almanakið 1945. Hann fjallar um ætt og uppvöxt Jóns, vesturförina og landnámið í Argylebyggð í Manitoba. Segir svo frá menntun og hvernig Jóni tókst að láta draum sinn rætast:

,,Jón Friðfinnsson var í orðsins fyllstu merkingu maður sjálfmenntaður, því að hann naut aðeins nokkurra mánaða skólakennslu, og var það öll hans skólaganga. En hann var frá því í æsku bókhneigður mjög, hafði sérstakt yndi af skáldskap og las allt, sem hann festi hendur á af því tægi. Mest þráði hann þó að læra söngfræði, og komst af sjálfsdáðum niður í grundvallarreglum söngfræðinnar, aflaði sér orgels og lærði að leika á það tilsagnarlaust, svo vel, að hann varð snemma á árum organleikari við kirkju Argyle-safnaðar. Eigi lét hann þar við lenda, því að áhugi hans á söngmennt og tónsmíðum var takmarkalaus, og aflaði hann sér nú frekari menntunar í söngfræði með bréflegri fræðslu hjá tónfræðingum bæði í Canada og Bandaríkjunum; síðan var hann um nokkurt skeið við nám hjá hinum kunna söngkennara og söngfræðing Rhys Thomas í Winnipeg, og kvaðst Jón eiga honum mikið að þakka* Annars er umhverfi og andrúmslofti Jóns á þroskaárum hans, námi hans og menningarstarfi, og sjálfum honum lýst í formála þeim, sem dr. Björn B. Jónsson ritaði að söngskrá hátíðarkantötu tónskáldsins árið 1936. En dr. Björn hafði sjálfur alist upp í Argyle nýlendunni og var bæði gagnkunnugur Jóni of æfiferli hans og lífinu í nýlendunni á landnámsárunum þar, enda bregður frásögn dr. Björns, jafnhliða lýsingunni  á tónskáldinu, upp glöggri mynd af menningarlegum áhugamálum nýlendubúa. Af þeim ástæðum samanlögðum, og einnig vegna hins, að þessi prýðilega grein dr. Björns mun nú í fárra höndum, er hún tekin hér upp í heild sinni:”  *Hefir hér verið stuðst við frásögn Jóns sjálfs um nám hans, í grein Jóns Jónssonar frá Sleðbrjót, Óðinn janúar-júní 1920 bls. 28-30. Greinarhöfundur birtir einnig bréf frá RHYS Thomas þar sem hinn síðarnefndi fer hinum lofsamlegustu orðum um Jón Friðfinnsson, telur hann hafa “ágæta tónlistargáfu” og segir, að mörg lög hans beri vott um “Mikinn frumleik og fegurðartilfinningu”.

Grein dr. Björns

,,Jón Friðfinnsson er maður vaxinn á vortíð íslenzku nýlendunnar í Canada. Kynstofninn, handan hafs, austfirzk bændaætt. Frjóanginn, uppstunginn úr móðurmold, fluttur, endurgræddur í nýrri álfu. Frjómagn nýgræðingsins, loft hans og sól, nýlendulífið harða, glaða og frjálsa. Fóstra Jóns, Argyle-byggð, var bráðþroska. Nýlendingar þar stórhuga, stórvirkir, stórlyndir. Á voröld nýlendunnar óx þar skrúðgresi mannvits, bókvísi og hugsmíða. Á daginn var unnið á ökrunum, á kvöldin lesið og sungið í kofunum. En þröngum takmörkum bundin var framgirni frumbúanna í Argyle. Af þessum rótum er Jón Friðfinnsson runninn. Í æsku bar Jón af leikbræðrum sínum að afli og áræði. Snemma var hann áhlaupamaður til vinnu, og fyrri öðrum ungum mönnum fór hann til höfuðborgar að afla fjár og frama. Var að glæsilegri, er heim kom aftur, og hæfari til stórræða. Er á leið uppvaxtar-árin gerðist Jón áhugamaður um andleg efni. Leitaði hann huga sínum svölunar í andlegu samneyti við sér eldri menn, þá er fróðastir voru og áttu yfir nokkurum bókaforða að ráða. Í þann tíð voru í Argyle nokkurir skáldmæltir gáfumenn. Við þá lagði Jón Friðfinnsson lag sitt. Fer þá fyrst að bera á listhneigð hans. Hann lærði ótal þeirra utanbókar. Þeim á hann sem listamaður líf sitt að þakka. Hann stýrir plóg og herfi um akurlandið dag eftir dag, en hjartað er að semja lög við ljóðin sín. Sárast er að eiga þess engan kost að læra. Á unga aldri hafði Jón komist yfir fiðlu og lært sjálfkrafa að leika á hana einföld lög. En heldur þótti fiðlan tefja hann frá verkum og var því ekki sem bezt liðin. Tuttugu og tveggja ára staðfestir Jón ráð sitt. Konan, Anna Jónsdóttir, ágæt og umhyggjusöm, varð stoð hans og stytta. Á öðru hjúskapar-ári þeirra gerðist sá atburður, er straumhvörfum olli í æfiferli Jóns Friðfinnssonar. Það kom orgel í húsið.”

Þrotlausar æfingar – Listsköpun

,,En nú þarf margt að læra. Jón kaupir sér kennslubækur og þreytist aldrei að æfa sig við hljóðfærið. Tilsagnalaust kemst enginn langt. Nú er það lán Jóns að hann á æskuvin norður við Íslendingafljót, Gunnstein skáld og hljómmeistara Eyjólfsson. Hjá honum fær hann leiðsögn og lexíur, og kemur Gunnsteinn honum á framfæri við tvo ágæta hljómfræðinga í Bandaríkjunum, dr. Horatio Clark í Philadelphia og dr. J.F.Ohl í Chicago. Í skóla til þessara manna gengur Jón bréflega svo árum skiftir. Með tilstyrk þeirra og sjálfs síns þolgæði nær hann því valdi á hljómfræðinni, sem verk hans bera vott um. Síðan naut hann hálft annað ár tilsagnar hjá hljómfræðingnum Rhys Thomas í Winnipeg. Áður Jón brygði búi í Argyle og færi alfari til Winnipeg, hafði hann þegar samið flest þau sönglög, sem komið hafa á almannafæri, nema “kantötuna”. Fyrsti smíðisgripur hans var lag við kvæðið “Heimkoman” eftir Kristján Jónsson. Samdi hann það árið 1891 og söng það sjálfur fyrsta sinn á samkomu í skólahúsinu að Brú. Öll lögin í hinu prentaða sönghefti hans eru samin úti á búgarðinum. Í ellefu ár var Jón Friðfinnsson organleikari og söngstjóri kirkjunnar í Argyle. Síðan hann fluttist til Winnipeg gefir hann fram til síðustu ára verið farandkennari í byggðum Íslendinga í Manitoba. Það er ekki smátt þjóð-þrifa-verk, sem Jón Friðfinnsson hefir unnið fyrir hönd sönggyðjunnar í íslenzkum byggðum. Það er sérfræðinga að dæma um listmæti tónsmíða hans. Hitt veit eg, að inn við beinið er Jón Friðfinnsson skáld. Um það er mér og kunnugt, að hetjulega hefir hann höggvið hjörvi gegn óblíðum æfikjörum á listbrautinni. Nú er Jón Friðfinnsson sjötugur. Syngi honum allar helgar kindir hymnalög á æfikvöldi”. –

Tónsmíðar

Nú heldur Richard Beck áfram: ,,Þegar litið er á allaraðstæður Jóns um dagana, sætir það furðu hversu langt hann hefur komist í tónmenntinni og hve mikið liggur eftir hann af tónsmíðum. Mun hann hafa samið milli 50 og 100 lög, og hafa mörg þeirra verið prentuð, annaðhvort í sönglagaheftum hans eða sérprentuð, auk þess sem ýmis þeirra hafa komið í íslenzkum blöðum og tímaritum beggja megin hafsins. En hann gaf út tvö sönglagahefti, “12 sönglög” (1904) og “Ljósálfa” (1921); hefir síðara heftið inni að halda 24 sönglög af mismunandi tónlagagerð, og er því allfjölbreytt, þó að mest beri á lögum raddsettum fyrir fjórar raddir. Er hér að finna sum af fegurstu og vinsælustu lögum tónskáldsins, svo sem “Vögguljóð”, “Vor”, “Nýársvísur” til Íslands” (Árið mitt er árið þitt). Lögin í þessu sönghefti bera því einnig vitni, að jón hefir lagt sérstaka rækt við það að semja lög við ljóð vestur-íslenzkra skálda, jafnhliða því sem hann hefir valið sér kvæði ýmsra hinna kunnustu skálda heimaþjóðarinnar til meðferðar. Ótalið er þó lengsta og fjölþættasta tónverk Jóns, en það er fyrrnefnd hátíðarkantata hans, er hann samdi við tilþrifamikla Alþingishátíðarkvæði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, og er það þeim mun eftirtektarverðara, þegar í minni er borið, að þetta verk er samið þá er Jón var orðinn hálfsjötugur að aldri. En þetta merkilega verk varð fyrst almenningi kunnugt, þegar íslenzku söngfélögin í Winnipeg, “The Icelandic Male Voice Choir” og “The Icelandic Choral Society” sungu það á sérstökum hljómleikum í Fyrstu lútersku kirkju þar í borg þ. 6. maí, 1936, í minningu um sjötíu ára afmæli tónskáldsins stuttu áður, að viðstöddu miklu fjölmenni. Gat höfundurinn, þó hann væri farinn að heilsu og hefði undanfarið legið þungt haldinn, verið viðstaddur þessa tilkomumiklu hljómleika honum til heiðurs, og hylltu hinir mörgu samkomugestir hann eftirminnilega. Konu tónskáldsins, sem reynst hafð honum svo ágætur förunautur á langri leið, var einnig minnst á verðugan hátt við það tækifæri.”

Tónleikarnir og umsagnir

,,Á hljómleikum þessum var eingöngu farið með verk Jóns. Auk hátíðarkantötunnar söng dótturdóttir hans, Lillian Baldwin , “Vögguljóð” hans, og hljómsveit lék “quartette” eftir hann, sem þótti hið smekklegasta tónverk. Fengu hljómleikar þessir, og þó sérstaklega hátíðarkantatan, sem var meginþáttur þeirra, ágæta dóma í báðum íslenzku vikublöðunum og þóttu mikill viðburður í félagslífi og þó einkum í tónlistar- og menningarlífi Íslendinga í Winnipeg, enda voru þeir endurteknir tveim vikum síðar, þ. 20. maí. Undir fyrirsögninni “Unaðsleg kvöldstund”, um fyrri hljómleikana, fórust Einari P. Jónssyni, ritstjóra Lögbergs meðal annars þannig orð: ,,Í kantötu Jóns eru gullfallegir kaflar; má þar einkum og sérílagi tilnefna, að því er oss fannst, upphafssönginn, sem er hvorki meira né minna en stórhrífandi, og karlakórslagið “Þér landnemar, hetjur af konungakyni”, prýðilegt lag með voldugum tónþunga. Einsöngvarnir komast ekki til jafns við kórsöngvana, að einum undanteknum, “Þó að margt hafi breyzt síðan bygð var reist”, sem er undurfalleg sópranó-sólo. Allt í gegn er kantatan sviphrein og laus við tilgerð; það mátti hún líka til með að vera, er tekir er tillit til hinnar óbrotnu djúpfegurðar hátíðarljóðanna, eða “Davíðssálma hinna nýju.” (Lögberg, 14. maí, 1936) ,,Richard Beck á orðið og segir,,En Ragnar H. Ragnar söngstjóri, er ritaði um hljómleikana í Heimskringlu, bar Kantötunni meðal annars þennan vitnisburð; ,,Fyrsti flokkur verksins “Þú mikli eilífi andi” fangaði þegar í stað hugi áheyrenda. Það hefir dulrænan seiðandi blæ, þrungið tilbeiðslu og lofgerð og túlkar ágætlega hátíðleik kvæðisins. Dúr og moll skiptast á og er hver tóntegund notuð í fyllsta samræmi við efni kvæðisins. Um þrótt verksins og karlmennskubrag er e.t.v. bezta dæmið “Við erum þjóð sem hlaut Ísland í arf (blandaður kór með dúett) og “Vakið vakið” (karlakór). Margt fleira mætti til telja og get eg ekki stillt mig um að fara nokkrum orðum um síðasta kórlagið, “Rís Íslands fáni”. Það lag er svo göfugt og laust við prjál, að það er sem tónskáldinu hafi verið ljóst að allt aukaskrúð var óviðeigandi í slíku ávarpi til almættisins er einskis metur tildur mannanna. Það er falslaus, einlæg bæn til drottins að vernda þjóð og land um alla komandi tíð.” (Heimskringla, 13. maí, 1936). Ragnar söngstjóri lagði einnig áherzlu á það, af hve miklum skilningi tónskáldið hefði klætt kvæðið í tónbúning og hversu vel kvæði og lag féllu alstaðar saman. Báðum dómum um hljómleikana bar einnig saman um það, að kórunum, einsöngvurunum og öðrum þátttakendum, hefði yfirleitt tekist hið bezta um meðferð tónverksins, svo að til sóma var öllum, er þar áttu hlut að máli.”

Niðurlag

,,Voru hljómleikarnir því hinu aldurhnigna tónskáldi mikið ánægjuefni og að sama skapi sigurvinning á sviði listarinnar; jafnframt sýndu þeir glögglega hver ítök hann átti í hugum samferðasveitarinnar og miklum vinsældum að fagna. Dró nú óðum að æfikveldi hans, því að hann lést rúmum sex mánuðum síðar, þ.16. september, 1936, eftir langa og stranga sjúkdómslegu, en borið hafði hann það mótlæti, eins og annan mótbyr um æfina, með þeirri hetjulund, sem var eitt af megineinkennum hans. Hann var einnig að eðlisfari gleðimaður mikill, og varð af þeim ástæðum, meðal annars, eins gott til vina og raun bar vitni. Íslenzkir alþýðumenn hafa lagt mikinn og merkilegan skerf til menningar hinnar íslenzku þjóðar, ekki síst bókmennta hennar. Með kennslu sinni í söng og hljóðfæraslætti víðsvegar í byggðum Íslendinga í Manitoba árum saman vann Jón Friðfinnsson hið ágætasta menningar- og þjóðræknisverk í þágu landa sinna vestan hafs, enda unni hann af heilum huga íslenzkum erfðum og menningarverðmætum. Á sviði tónmenntar og tónsmíða var hann sérstæður og ágætur fulltrtúi íslenzkra alþýðumanna, og munu mörg lög hans lifa á vörum landa hans beggja megin hafsins og reynast honum traustur minnisvarði.”