Hallgrímssöfnuður í Vatnabyggð

Vesturfarar

Kortið sýnir bæinn Foam Lake og þorpið Leslie. Hallgrímssöfnuður var myndaður af landnemum suður og vestur af Leslie.

Íslenskir innflytjendur í Bandaríkjunum og Kanada urðu að taka trúmál í sínar hendur þar sem engin var þjóðkirkja líkt og heima á Íslandi. Þegar fjöldi landnema á tilteknu svæði var nægur kom að því að söfnuður var myndaður og sóknarnefnd skipuð. Oftast hófst safnaðarstarfið í heimahúsum þar sem kirkja hafði ekki verið reist. Þá var algengt að ungir söfnuðir nutu ekki þjónustu prests fyrstu árin. Seint á 19. öld hófst íslenskt landnám á svæði á kanadísku sléttunni sem seinna varð Saskatchewan. Þangað streymdu Íslendingar að frá ýmsum byggðum Íslendinga í Bandaríkjunum og Kanada svo og frá Íslandi um og eftir aldamótin. Smátt og smátt þéttist byggð, járnbrautir voru lagðar og lítil þorp mynduðust um hverja brautarstöð. Árið 1917 birtist grein í Almanaki Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg um Vatnabyggðir en svo voru héruðin íslensku sunnan við stórvötnin yfirleitt kölluð. Friðrik Guðmundsson er höfundur og segir á einum stað:,,Meðal Íslendinga í bygð þessari hafa nú þegar myndast 9 söfnuðir, eða kirkjusóknir, sem það var kallað heima á Íslandi. Söfnuðir þessir heita: Foam Lake söfnuður, Kristnessöfnuður, Hallgrímssöfnuður, Sléttusöfnuður, Sólheimasöfnuður, Quill Lake söfnuður, Immanúelssöfnuður, Vatnasöfnuður og Ágústínussöfnuður. Þessir mörgu söfnuðir benda eindregið og hiklaust á lofsvert og áhugaríkt trúarlíf, að minsta kosti fyrir alla þá, sem ekki þekkja til”. Sóknarnefndir gengdu miklu hlutverki í hverri byggð, hlutverk þeirra var fyrst og fremst að annast allan rekstur safnaðarins eins og fundargerðabók Hallgrímssafnaðar ber með sér.

 

Þegar ég var skiptinemi í Saskatchewan, 1994-1995, kynntist ég þar konu að nafni Sigga (Arnason) Springer.  Hún var Vestur-Íslendingur og bjó í Foam Lake, en Foam Lake er hluti af Vatnabyggðarsvæðinu þar sem margir Íslendingar settust að. Pabbi Siggu,  Brynjólfur (Binni) Árnason, fluttist ásamt foreldrum sínum og eldri bróður frá Íslandi til Kanada þegar hann var á barnsaldri. Mamma hennar, Sibjort Sigridur Stefanson, var íslensk í báðar ættir en fæddist í Kanada. Við Sigga urðum góðar vinkonur þrátt fyrir um hálfrar aldar aldursmun og héldum sambandi þar til hún lést árið 2017. Þegar ég heimsótti Saskatchewan, eftir að ég kom heim úr minni skiptinemadvöl, gerði ég mér alltaf ferð til Foam Lake að heimsækja hana. Árið 2006 fórum við mamma mín, Elsa Gísladóttir, í heimsókn til Saskatchewan og heimsóttum að sjálfsögðu hana Siggu mína og þá gaf Sigga mér þessa bók. Það er sem mig minnir að pabbi hennar, Brynjólfur (Binni) Árnason, hafi verið í stjórn eða sóknarnefndinni síðustu árin og hvort Helgi Árnason, föðurbróðir hennar, hafi ekki verið ritari á sama tíma. Þessi bók hafði svo endað í hennar fórum og nú vildi Sigga gefa mér bókina því enginn í hennar fjölskyldu læsi íslensku lengur. Fundarbókin hefur verið í mínum fórum síðan. Bókin inniheldur fundargerðir Hallgrímssafnaðar á árunum 1921-1941.

                                                                                                                                                                                 Þórdís Edda Guðjónsdóttir, 9. febrúar 2021 

 

 

Smelltu hér til að sækja bókina

Eða hér til að opna hana (hægvirkt)