Hinrik Jónsson

ID: 3132
Date of birth : 1854
Place of birth : Ísafjarðarsýsla
Date of death : 1946

Hinrik Jónsson fæddist í Önundarfirði í Ísafjarðarsýslu árið 1854. Dáinn í Manitoba 21. júlí, 1946.  Hinrik Johnson vestra.

Maki: 1888 Oddný Ásgeirsdóttir f. að Lundum í Mýrasýslu árið 1865.

Börn: 1. Ingibjörg f. 1901 2. Kristín Sigríður f. 31. janúar, 1905 í Ebor í Manitoba. Upplýsingar vantar um önnur börn en alls áttu þau 11 börn og komust 10 til fullorðins aldurs.

Hinrik flutti vestur um haf árið 1886 til Winnipeg í Manitoba og dvaldi þar um hríð. Vorið 1887 tók hann þátt í fyrstu könnunarferð á svæði austan við Manitobavatn þar sem Lundarbyggð myndaðist seinna. Hann nam land sama sumar og flutti á land sitt í ágúst. Oddný kom vestur ári síðar og flutti svo nýgift með manni sínum á landið sem Hinrik kallaði Lundar. Hinrik sótti um að fá að opna pósthús heima hjá sér og fékk það. Var það alltaf nefnt Lundar pósthús. Einu sinni í viku sá Hinrik um póstflutninga til og  frá pósthúsinu í Clarkleigh, litlu þorpi einum 14 km. sunnar. Hann hafði orðið fyrir slysi á Íslandi og missti annan handlegginn en þrátt fyrir mikla fötlun afrekaði hann margt. Þeim hjónum varð ljóst að land þeirra var ekki gott og fluttu þau úr byggðinni, sumar heimildir segja árið 1891 (SÁG) en aðrar ekki fyrr en 1897 (WtW). Þau fluttu vestur á sléttuna eins langt og járnbrautin náði. Þau námu land nærri Ebor í Manitoba þar sem þau bjuggu á sínu landi í 44 ár. Þau fluttu af landinu árið 1937 til Virden og seinna þaðan til Winnipeg.